top of page

Um gæðamál Múltikúlti íslensku ehf.

(Af fundi um gæðamál þann 22. ágnúst2020)

Ráðning kennara og hæfni

Við val á kennurum er litið til menntunar í tungumálum, reynslu í kennslu, en ekki síst hæfni í mannlegum samskiptum og frumkvæði. Kennurum ber að fara með nemendum í gegnum hefti hvers námskeiðs og útskýra fyllilega öll helstu atriði. Leitast er eftir að klára hvert hefti en náist það ekki er þó passað að öll helstu málfræðiatriði námskeiðsins séu tekin fyrir. Hafi nemendur einhverjar viðeigandi spurningar utan þess efnis, er einnig leitast við að svara þeim.

Námsefni

Í upphafi annar er fundur með kennurum þar sem farið er yfir ýmis mál, rætt það sem hefði mátt betur fara og umsagnir nemenda um námskeið. Á þessum fundum eru ábendingar kennara, jafnframt sem nemenda, teknar fyrir. Á þessum fundum er einnig farið yfir námsefnið, hvað megi betur fara og því er kennsluefnið í sífelldri þróun til þess að hámarka nýtingu þess en einnig til þess að vera í samræmi við nútímaleg samfélagleg viðhorf.

               Heftið sem notast er við í Íslensku 1 var síðast uppfært í ágúst 2020.

               Heftið sem notast er við í Íslensku 2 var síðast uppfært í Júní 2020.

               Heftið sem notast er við í Íslensku 3 var síðast uppfært í Ágúst 2020.

               Heftið sem notast er við í Íslensku 4 var síðast uppfært í Ágúst 2020.

               Í Íslensku 5 er ekki notast við hefti.

Persónuupplýsingar

Í ágúst (2020) var fundur með fyrirtækinu Future404 til að fara yfir gagnamál fyrirtækisins, svo að þau uppfylli kröfur um gagnavernd Evrópusambandslaganna sem tekin voru upp á Íslandi árið 2018. MúltíKúltí er því að vinna í því að innleiða vinnubrögð í samræmi við þau. Stefnt er að því að þeirri innleiðingu verði lokið í október 2020 (sjá viðhengi með skýrslu).

Nemendur og ánægja þeirra, mæting og kröfur.

Nemendur eiga rétt á auglýstum fjölda kennslustunda (60)/klukkustunda (40). Auk þess er þeim gerð grein fyrir þeirri lágmarksmætingu sem krafist er.  Ef nemandi hefur lokið námi með fullnægjandi mætingu (að lágmarki 75%), fær hann viðurkenningarskjal (meðfylgjandi) þar sem fram kemur nafn viðkomandi, stig, fjöldi kennslustunda og kennsluaðili. Geti nemendur ekki lokið námskeiði af óviðráðanlegum aðstæðum, býðst þeim að ljúka því á öðru námskeiði á sama stigi, án aukakostnaðar, að því gefnu að slíkt námskeið sé haldið og það sé ekki fullskipað.

Úrlausn ágreiningsmála

Komi upp ágreiningur á milli einhverra eftirtalinna aðila; kennara, nemenda eða annarra starfsmanna, er það á ábyrgð skólastjóra að leysa úr honum. Skólastjóri ræðir þá við viðkomandi og reynir að sætta aðila, en úrskurði að öðrum kosti í samræmi við kröfu um jafnræði, gagnsæi og góða stjórnsýsluhætti. Geri hann viðkomandi grein fyrir að ef þau sætti sig ekki við ákvörðunina, eigi þau rétt á að kæra hana til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, auk þess sem nemendur njóta þess réttar sem almenn neytendavernd og -lög kveða á um.

Fyrirhugaðar umbætur

-Nú stendur yfir leit að stærra húsnæði fyrir starfsemina, þar sem núverandi húsnæði er orðið of lítið. Stefnt er að því að geta boðið upp á stærri og bjartari kennslurými fyrir vaxandi fjölda nemenda.

-Kennsluheftin fyrir hin ýmsu stig eru í sífelldri endurnýjun og mótun, en eru einföld gormahefti. Fyrirhugað er að setja heftið fyrir fyrsta stig í íslensku í vandaðra og varanlegra form og láta prenta í umtalsverðu upplagi.

bottom of page